Það sem gæti virkað á þvílíkt samviskuóhóf er skyldan til þess að eiga sér áhugamál. Stærsti drifkraftur samviskunnar er skyldan. Þá skipta aðrir hlutir en lífið sjálft mestu máli. Þar skortir fullkomlega á þann eld sem sprengir upp hömlur ástríðunnar og fyllir líkamann lífi og krafti svo hann geti sleppt fram af sér beislinu og notið hverrar mínútu sem hann hreyfist. Skyldan gagnvart sjálfum sér ætti að vera frumskyldan.

Mjög margir krónískir lífsstílssjúkdómar sem hrjá okkur í dag stafa af þessum völdum, óhóflegu magni af samvisku og skorti á lífi og sál. Þá verður lífið einber þjónusta við hugmyndir, skoðanir og líf annarra. Við gleymum að elska og gleymum að anda og lifa í takt við okkar eigin hjarta. Við þurfum kraft til þess að hreyfast - lífskrafturinn þarf ekki að byggjast á þjakaðri skyldutilfinningu heldur er líka hægt að hleypa ástríðunni upp á yfirborðið.