Saturday, September 11, 2010

Afdrifarík fyrsta reynslan mín af hómópatíu.

Mig langar til að deila hér þeirri "tilviljanakenndu" atburðarás sem varð til þess að ég ákvað að fara læra hómópatíu. Fyrir um 20 árum síðan fór ég að hafa áhuga á að bæta líf mitt með lífstílsbreytingum. Á þeim tíma voru óhefðbundnar lækningar mér mjög framandi hugmynd. Ég hafði alist upp við að móðir mín lagði áherslu á heilnæmt mataræði en fékk ekki áhuga á því sjálf fyrr en löngu seinna. Upp úr tvítugu fór ég að hafa áhuga á að breyta mataræði mínu sem jókst stigvaxandi í beinum tengslum við þá auknu vellíðan sem ég fann eftir því sem ég vandaði mig meira við fæðuvalið. Það breytti svo öllu þegar börnin fæddust.
Sonur minn fæddist árið 1995 og dóttir mín ári síðar. Við það tvíelfdist áhugi minn á mataræði og skynsamlegum lífstíl. Mig langaði að gera það sem í mínu valdi stæði til þess að líf barnanna sem mér hafði verið treyst fyrir, yrði sem best. Það fólst meðal annars í því að huga vel að mataræði til þess að byggja upp hjá þeim sterkt ónæmiskerfi. Á þeim tíma tók ég virkan þátt í starfi með grasrótarfélaginu Barnamáli sem var áhugafélag um brjóstagjöf og vöxt og þroska barna. Þar kynntist ég dásamlegum konum sem studdu nýbakaðar mæður við brjóstagjöf. Sá stuðningur var veittur "frá móður til móður". Fyrirmyndin að þessum félagi er La Leche Leaque  http://www.llli.org/  sem eru alþjóðaáhugasamtök um brjóstagjöf. Þetta starf var virkilega fræðandi og gefandi enda fátt í lífinu fallegra en móðir með barn á brjósti. Við brjóstgjöf losna sömu hormón hjá móðurinni og losna hjá fólki við ástundun hugleiðslu. Til eru margar hlýlegar reynslusögur mæðra sem segja frá því að þær hafi komist í tengsl við áhugasvið sitt og ástríðu meðan á brjóstagjöf stóð. Sjálfsþekking þeirra jókst. Samt þarf að hafa í huga að ekki eru allar konur sem geta eða vilja hafa börn sín á brjósti og það er mikilvægt að hver kona sé sátt við val sitt og stöðu í þeim efnum og að þær fái stuðning til þess að hafa hlutina eins og þeim hentar best. Annar kostur brjóstagjafar er að hún styrkir ónæmiskerfi barnanna og þau þurfa þá síður inngrip í formi lyfja.

Í kjölfarið á því að dóttir mín, þá tveggja ára, sem ævinlega var full af orku og lífsgleði, þurfti í fyrsta skipti að fá pensilín, fékk hún stöðugt nefrennsli. Vinkona mín í Barnamáli benti mér á að fara með hana til hómópata til þess að fá lausn á þessu. Ég hugsaði mig ekki lengi um og pantaði fljótlega tíma. Þar sem ég sat í stofunni hjá hómópatanum með bæði börnin með mér og lýsti einkennum dóttur minnar af völdum pensilínsins þá fylgdist hómópatinn vel með átökum systkinanna sem voru ekki allskostar sátt. Hún spyr mig svo hvort sonurinn sé afbrýðissamur sem ég játti. Þá kom hún með þessa ógleymanlegu tillögu "villtu ekki fá eitthvað við því?". Ég tók andann á lofti og næstum hvíslaði "er hægt að fá eitthvað við afbrýðissemi?" og mér fannst ég ekki þurfa að vita meira um lífið. Þetta var málið.  Ég yfirgaf hómópatann og fór heim með remedíur upp á vasann. Ég gaf börnunum remedíuskammt eins og fyrir hafði verið lagt. Á sama andartaki og sonur minn fékk remedíuna upp í sig þá gerðist eitthvað. Hann breyttist og slakaði á. Ég þorði varla að trúa þessu og alls ekki að segja frá því fyrst um sinn.

Þremur mánuðum seinna var ég byrjuð í skólanum að læra þetta undursamlega fag. Þá hét skólinn The College of Practical Homoeopathy, en í dag heitir hann Homoeopathy College http://www.homoeopathytraining.co.uk/. Fyrsta hálfa árið var ég mállaus því þetta voru svo ótrúleg fræði og öðruvísi en allt sem ég hafði lært. Í náminu þurfti ég að kollvarpa svo mörgu sem tilheyrði hefðbundnu og rótgrónu trúarkerfi mínu og fá nýtt og öðruvísi inn í staðinn. Það var bókstaflega eins og að vera hent fram af bjargi. Öll fjögur árin í skólanum voru svo áhugaverð og skemmtileg að ég hlakkaði ævinlega til að mæta í skólann. Ég myndaði djúp tengsl við fagið og ekkert finnst mér jafn áhugavert og að grúska í hómópatíunni - sinna kúnnum, hitta kollega og stúdera.

Á þennan hátt þróaðist þessi hluti lífs míns, mér alveg að óvörum. Söngkonan Enya syngur um að tíminn sé það eina sem geti sagt til um hver leið okkar í lífnu sé. "Who can say where the road goes, where the day flows, only time." http://www.youtube.com/watch?v=v0NoHN1TU5I&feature=related

Sunday, August 29, 2010

Louise Hay

Louise L. Hay hefur verið mér leiðarljós í langan tíma. Hún er nánast eins og fjölskyldu-meðlimur. Það er svo undravert að maður getur myndað tilfinningatengsl við fólk í gegnum hugsun þess með því að lesa greinar eða bækur eftir það. Hún skrifar líka af sérlega miklum kærleika til lesandans sem er auðvelt að nema gegnum textann. Ein bókin hennar heitir Hjálpaðu sjálfum þér. Hugmyndafræði þeirrar bókar nýttist mér og fleirum mikið í hómópatíunni. Þar sýnir hún meðal annars fram á hvernig líkamleg einkenni geta verið eðlileg afleiðing af hugsunum og þeim trúarkerfum sem eru innbyggð í huga okkar. Þau verða einnig innbyggð í líkama okkar.

Louise L. Hay skrifaði líka bók með jákvæðum staðhæfingum sem heitir I CAN DO IT. Þó svo jákvæðar staðhæfingar séu oft ódýrar þá er eitthvað töfrandi við Loise Hay og hennar speki, eitthvað meira og dýpra. Það er ólíklegt að við getum allt, sumt þurfum við hreinlega að sætta okkur við að við getum ekki. Samt sem áður er það algengt að við getum þó alltént mun meira en við trúum að við getum.
Þrátt fyrir að jákvæðar staðhæfingar geti haldið manni á floti í lífinu, þá er mín reynsla sú að þær eru ekki alltaf nóg. Stundum hef ég farið í gegnum heilu tímabilin og gert hlutina án þess að trúa að ég geti það og eiginlega trúað að ég geti það ekki. Þá hef ég reitt mig á vini og vandamenn til þess að komast áfram og framkvæmt gegn þessu trúarkerfi, af því ég veit að það er til eitthvað stærra en ég og ég trúi því að ég er ekki ein um að skapa mitt líf. Það er til máttur sem vill mér betur en ég sjálf, meira að segja betur en ég get ímyndað mér að ég eigi skilið. Önnur ástæða þess að ég hef neitað að trúa þessu vantrúarkerfi mínu er að ég vil ekki bjóða börnunum mínum upp á þetta trúarkarma. Ég vil vera góð fyrirmynd fyrir þau.
En á öðrum tímum þarf ég ekki að kljást við þessa vantrú. Þá get ég haldið áfram og treyst því að í augnablikinu finni ég kraftinn og ástríðuna til þess að gera hlutina þannig að það verði öllum til góðs. Þá get ég verið til staðar bæði líkamlega, andlega og tilfinningalega. Eitt sinn sagði kona við mig "við erum hérna fyrir hvert annað". Þá tók mig nokkurn tíma að átta mig á hvað hún meinti en hún átti við að þurfum ekki að gera hlutina ein. Hugmyndin er sú að við njótum þess að vera í samfélagi við aðra og gera hlutina saman. Gleðin og þroskinn kemur úr samveru með öðrum. Það þarf ekki svakalegan húmor til heldur aðeins að vera til staðar, tilbúinn að mæta andartakinu, bæði andlega og tilfinningalega.

Það er auðveldara að lifa í trausti þess að á flóknum tímabilum er ævinlega einhver sem er tilbúinn að grípa okkur, á saman hátt og það gefur okkur mikið að geta gripið aðra þegar þeir mæta mótlæti í lífinu.

http://www.youtube.com/watch_popup?v=8X5_XsFtXtw&vq=small#t=73

Sunday, August 1, 2010

Vefjagigt og hómópatía

Vefjagigt (fibromyalgia) og síþreyta (chronic fatigue syndrome) eru með áhugaverðustu birtingarmyndum á ástandi manneskju í nútímaumhverfi og oft á tíðum jafnvel óhjákvæmilegar viðvaranir miðað við þann lífsstíl sem við tileinkum okkur gjarnan.
Það er algengt að einstaklingar með þessa sjúkdóma þjáist einnig af meðvirkni. Það þýðir að þeir hafi í of langan tíma gert aðra hluti, fólk eða hugmyndir að ráðandi öflum í lífi sínu. Meðvirkni orsakar það að við kunnum hvorki að hugsa út frá okkur sjálfum né um okkur sjálf. Meðvirkir einstaklingar kunna líklega að hugsa um flesta aðra en hafa ekki lært að gera sig sjálfa að viðfangi lífs síns. Þeir vita sjaldan hvernig þeim líður, hvers þeir þarfnast eða hvernig þeir geta bætt líf sitt. (Margir ná bata í 12 spora samtökum, t.d. coda - coda.is.) Á endanum gengur viðkomandi svo nærri sjálfum sér að bæði andleg og líkamleg einkenni fara að gera vart við sig og hreinlega öskra á hann að hugsa betur um sig.

Það var eftirminnilegur fyrirlestur sem ég fór á hjá hómópata, hann fjallaði um síþreytu og vefjagigt. Hómópatinn hafði meðhöndlað marga einstaklinga sem voru á hefðbundinn hátt greindir með þessa sjúkdóma. Hann sagði að oft hefðu þessir einstaklingar þurft að bera mikla ábyrgð á öðrum og ekki upplifað að einhver hugsaði um þá eða bæri ábyrgð á þeim. Þeir væru þess vegna sífellt á verði gagnvart hlutum sem hugsanlega gætu gerst í lífi ástvina þeirra, á þann hátt voru þeir í nokkurskonar guðshlutverki og náðu aldrei andlegri hvíld. Aðferð hómópatans við að meðhöndla þessa skjólstæðinga sína fólst meðal annars í ákveðinni hugleiðslutækni. Hómópatinn lét skjólstæðinginn leggjast á bekk og slaka á. Þá fullvissaði hómópatinn skjólstæðinginn um að það væri ekkert sem hann þyrfti að hafa áhyggjur af því nú ætlaði hann, hómópatinn að sjá um skjóstæðing sinn og passa að ekkert kæmi fyrir, hvorki hann sjálfan né ástvini hans. Þessa æfingu gerði hómópatinn reglulega með skjólstæðingi sínum sem hjálpaði honum að treysta lífinu, sleppa tökunum af áhyggjunum og hvílast andlega.

Orðtakið "Lifðu og leyfðu öðrum að lifa" á vel við hér. Þarna styðja báðir þættir hvor annan, það er ekki nóg að við leyfum öðrum að lifa heldur styðjum við líf annarra með því að lifa einnig okkar lífi eins og hæfir okkur.


Hómópatía virkar oft mjög vel á einstaklinga sem þjást af þessum einkennum. En 20 mismunandi einstaklingar sem þjást af vefjagigt samkvæmt hefðbundnum læknisgreiningum, fá jafnvel 20 mismunandi meðferðir hjá hómópata þar sem einstaklingurinn er í fyrirrúmi og einkennamyndin ólík á milli einstaklinga. Hómópatían leitar að orsök einkennanna í lífssögunni. Hún gerir einnig ráð fyrir að við lifum í takt við ákveðin náttúrulögmál sem gera það að verkum að líf leitar í jafnvægi eða heilbrigði. Náttúrulögmálin þurfum við að virða. Vithoulkas segir í bók sinni The Science of Homoeopathy: (bls 14)

  • Þegar menn brjóta á náttúrulögmálunum, þá leiðir það til margs konar umhverfisspillingar sem orsakar meiri streitu og hún hamlar svo hæfni einstaklingsins til þess að virka vel. 
  • Mannkyn hefur smám saman glatað innri meðvitund sinni sem gerir manneskjum kleift að bera skynbragð á þau náttúrulögmál sem ber að virða. 
Það er flókið fyrir manneskjur að lifa í tengslum við innsæi sitt, náttúruna og lífið, í menningarheimi sem er upptekinn af þáttum sem auka á meðvirkni einstaklinga. Hugmyndafræðin sem lifir í samfélagi okkar stuðlar að sjúkdómum og það þarf sterk bein til þess að lifa gegn þessum hugmyndum og gera eigin heilsu og líf í takt við náttúrulegt eðli okkar, mikilvægara.

Lisa Klein Weber hefur áhugaverða sögu að segja af bata sínum af vefjagigt. Hún hefur einnig byggt upp mjög góða síðu um sjúkdóminn og sett þar fram mikilvæga þekkingu varðandi hann sem einnig er byggð á eigin reynslu.   http://www.releasefibromyalgia.com/my-healing-curing-and-reversing-fibromyalgia-philosophy-and-faq/

Tuesday, July 13, 2010

Skylda eða áhugamál.

Við vorum að spjalla vinkonurnar um óhóflegt magn af samvisku. Samviskan er nauðsynleg og leiðbeinandi í hóflegu magni en stundum fer hún yfir þau mörk. Þjakandi skyldutilfinningin verður þá ráðandi í ákvörðunum dagsins. Svo ef ákveðið er að leggjast upp í sófa með sæng og léttri mynd skellt í tækið þá nær athyglin vart söguþræði myndarinnar því skylduverkin óunnu blikka stöðugt í meðvitundinni. Er þetta athyglisbrestur? Nei, þetta er óhóflegt magn af samvisku.
Það sem gæti virkað á þvílíkt samviskuóhóf er skyldan til þess að eiga sér áhugamál. Stærsti drifkraftur samviskunnar er skyldan. Þá skipta aðrir hlutir en lífið sjálft mestu máli. Þar skortir fullkomlega á þann eld sem sprengir upp hömlur ástríðunnar og fyllir líkamann lífi og krafti svo hann geti sleppt fram af sér beislinu og notið hverrar mínútu sem hann hreyfist. Skyldan gagnvart sjálfum sér ætti að vera frumskyldan.

Tökum dæmi um manneskju sem elskar að dansa og verður að leyfa sér það. Lífið án dansins verður líf án sálar. Sorglegu fréttirnar eru þær að sumar þessar manneskjur hætta að dansa og láta óhóflegt magn af samvisku ná yfirhöndinni.

Mjög margir krónískir lífsstílssjúkdómar sem hrjá okkur í dag stafa af þessum völdum, óhóflegu magni af samvisku og skorti á lífi og sál. Þá verður lífið einber þjónusta við hugmyndir, skoðanir og líf annarra. Við gleymum að elska og gleymum að anda og lifa í takt við okkar eigin hjarta. Við þurfum kraft til þess að hreyfast - lífskrafturinn þarf ekki að byggjast á þjakaðri skyldutilfinningu heldur er líka hægt að hleypa ástríðunni upp á yfirborðið.

Friday, May 28, 2010

Engiferrótarseyði og góður svefn

Fyrir um það bil tveimur árum síðan var ég í leshóp. Við lásum saman bókina Tilgangsríkt líf. Ein minningin sem tengist þessum kvöldum var engiferrótarseyðið sem við fengum ævinlega hjá gestgjafanum, en hann leiddi einnig leshópinn. Mér varð svo gott af seyðinu. Ég fór að temja mér hér heima að skera niður ca 1 cm af engiferrót í litla bita og sjóða í vatni í ca 15 mín, helli svo síuðu vatninu í uppáhaldsdrykkjarkönnuna mína og nýt þess að drekka. Nú drekkum við þetta fjölskyldan, ég og börnin mín gjarnan á kvöldin og finnum öll hversu gott það gerir okkur. Ég hef líka tekið eftir því að ég sef mun betur eftir að drekka seyðið.

Svefn er eitt af því sem ég hef lært meir og meir að setja í algjöran forgang í lífi mínu. Ef nógur og góður svefn er ekki fyrir hendi þá er tómt mál að tala um að ætla að taka sér eitthvað fyrir hendur á daginn annað en komast í gegnum hann í einhvers konar móki. Fyrir mig er góður svefn grunnur þess að ég haldi sæmilegri geðheilsu.
Hljómsveitin Sigurrós gefur manni draumkennt ímyndunarafl sem er notalegt að fylgi manni inn í svefninn. http://www.youtube.com/watch?v=sWiJWLiSKro&feature=related

Sunday, May 23, 2010

Hómópatía - salt



Eyjan okkar Ísland er umlukin sjó. Sjórinn aðgreinir okkur frá öðrum löndum, jafnvel einangrar og kannski verndar okkur. Hann hefur líka tekið - og í honum endurspeglast óendanleikinn. Saltið í sjónum gerir hann þungan og stuðlar að því að hann frýs ekki eins auðveldlega. 

Hómópatíska remedían Nat mur er unnin úr salti. Þetta er ein stærsta sorgarremedían. Einstaklingur sem þarf á þeirri remedíu að halda einangrar sig gjarnan frá heiminum. Það gerir hann ekki endilega líkamlega eða félagslega heldur verður hann tilfinningalega fjarrænn, gjarnan með tár í auga. Þessar manneskjur vernda sig með ýmsum hætti gagnvart raunveruleikanum. Þeirra stóri ótti er að vera hafnað. Sá ótti ræður ákvörðunum einstaklingsins. Hann kemur sér ekki í aðstæður þar sem honum gæti hugsanlega verið hafnað.
Öll förum við inn í þessa mynd einhvern tíman í lífinu, íslendingar sérstaklega. Við erum oft talin tilfinningalega lokuð eða fjarlæg. Hugsanlega hefur saltið í hafinu sem umlykur eyjuna okkar einhver áhrif á það.

Saturday, March 20, 2010

Líkt læknar líkt

Einkunnarorð hómópatíunnar líkt læknar líkt eru kennd við Samuel Hahnemann (1755-1843).


Það merkir að ef eitthvað veikir manneskju þá mun eitthvað hliðstætt í smáskammtaformi hvetja líkama hennar til þess að leiðrétta þá skekkju sem dregur úr henni mátt.


Skekkjan verður þegar eðlileg virkni manneskjunnar - hvort sem það er líkamleg, huglæg eða andleg virkni - afvegaleiðist og vinnur á þann hátt að manneskjan upplifir þverrandi lífskraft.


Smáskammtur er efni eða orka sem er útþynnt, jafnvel svo mikið að það mælist ekki með nútímamælitækjum. Í útþynntu formi virkar smáskammturinn eins og svar við því sem orsakaði skekkju manneskjunnar og hvetur þá líkama, huga og sál til leiðréttingar.


Hómópatían vinnur með orsök einkennanna svo þau leiðréttist. Hún bælir ekki einkenni og telur sér trú um að nú sé allt í lagi þar sem einkennin eru ekki sýnileg lengur.

Tökum dæmi af einstaklingi sem á erfitt með svefn. Hann er fullur streitu, hendur hans skjálfa og hann virðist nokkuð hvatvís. Þetta eru lík einkenni og of mikil kaffidrykkja gæti valdið. Remedía sem unnin er úr kaffi er þá hugsanlega svar við þessum einkennum. Þegar viðkomandi fær kaffi-remedíu þá minnir hún líkama, huga og sál á skekkjuna sem myndast hefur. Manneskjan notar þá sinn eigin heilunarkraft til þess að leiðrétta skekkjuna og við það hverfa einkennin. Heilunarkraftur er viska sem dvelur í frumum, undirmeðvitund og lífskrafti. Manneskjan þarf því ekki að nota meðvitund sína heldur vinnur heilunarkerfi hennar af sjálfsdáðum. Við erum þannig uppbyggð að líf okkar hefur tilhneigingu til þess að leita í jafnvægi. Einkenni einstaklingsins eru á þann hátt tjáning líkamans og benda til þess að leiðréttingar er þörf.

Friday, March 19, 2010

Súkkulaði - fæða guðanna.

Það gleður mig ósegjanlega þegar ég hugsa til þess að ég bý í nágrenni Mosfellsbakarís. Þar inni lifir tilfinning sem hugsanlega líkist paradís. Þar er búið til besta og fallegasta súkkulaði sem mögulega er hægt að hugsa sér. Súkkulaði-listaverkin framkalla innra með mér algjöra sátt við staðsetningu mína. Þessi ólýsanlegi staður gleymir heldur ekki upprunanum því uppi á vegg er stór skjár sem sýnir myndir af kakóbaunum í vinnslu og suðuramerísk tónlist gerir mann hljóðan.
Fyrir tvöþúsund árum síðan voru kakóbaunir fyrst uppgötvaðar í Mið- og Suðurameríku . fimmhundruð árum seinna bárust þær til Spánar og dreifðust þá um Evrópu. Í dag koma flestar kakóbaunirnar frá Fílabeinsströndinni. Það sætir furðu minnar að flestar eru þær unnar í Bandaríkjunum og Evrópu.
Við Brazilíska tóna http://www.youtube.com/watch?v=suOcREUVFtA

Það eru ekki margar bíómyndir sem festast mér í minni eftir að ég hef horft á þær. Oft á tíðum hverfa þær fljótlega úr huga mér. Chocholat er ein þeirra mynda sem virkilega er þess virði að sjá og jafnvel eiga í vel völdu heimilissafni. Hún verður eins og "góð minning". Myndin fjallar um unga móður sem flytur með dóttur sína til lítils þorps í Frakklandi. Það var þungt yfir mannlífi þorpsins og fólkið óhamingjusamt. Það breytti hinsvegar öllu þegar unga konan opnar súkkulaðibúð í þorpinu. Þar vann hún súkkulaði-afurðir sínar frá grunni af mikilli alúð. Andrúmsloftið í þorpinu lyftist og hamingjan læðist inn með ilmandi súkkulaði bragðbættu með kærleika.
Hér er trailer
http://www.youtube.com/watch?v=KEzzbBc7Tw4

Monday, March 15, 2010

Áhyggjulaus!

Eitt sinn sat ég á fyrirlestri þar sem var verið að kenna okkur að finna innri vellíðan. Aðferðin kom á óvart og var mjög praktísk. Við áttum að loka augunum og hugsa aftur til æskunnar.
"Hver er fyrsta minning þín þar sem þú ert algerlega áhyggjulaus?" spurði kennarinn.
Þegar minningin var fundin rifjaðist upp tilfinningin sem fylgdi henni, að vera áhyggjulaus. Ja hérna, hugsaði ég með mér, langt síðan ég hef upplifað svona mikið frelsi.

Eftir það get ég ævinlega sótt minninguna þar sem ég hleyp um í náttúrunni fullkomlega meðvituð um vindinn, lyktina og hljóðið sem umlak mig en algjörlega ómeðvituð um hverjar þær áhyggjur sem hægt er að láta sér detta í hug.

Monday, March 8, 2010

Hamingja & uppeldi

Uppeldi er efni sem ég hef óþrjótandi áhuga á. Flest sem snýr að uppeldi og að verða betri manneskja nær athygli minni. Ein af þeim konum sem ég lít upp til varðandi uppeldis- og kennslufræði er Nel Noddings http://www.infed.org/thinkers/noddings.htm . Hún minnir að sumu leyti á Evu Joly í útliti og er engu minni kvenskörungur. Ég las ógleymanlega bók eftir hana sem heitir Happiness and Education, http://ebooks.ebookmall.com/ebook/167838-ebook.htm. Þar segir hún að þegar foreldrar eru spurðir hvað þeir vilji helst til handa börnum sínum er svarið yfirleitt hamingja. Ef þau eru ekki hamingjusöm verða aðrir hlutir hjóm eitt. Því furðar hún sig á því að hamingjan sé ekki grundvallarmarkmið í námskrám skólanna.

Ég man þá tíð, sérstaklega þegar ég var unglingur, þá fannst mér það hljóta að vera skortur á visku að vera hamingjusamur. Ég var einfaldlega sannfærð um að hamingjan væri ekki til.
Nú er ég sammála Noddings. Hamingjan er viska. Hún auðveldar bæði nám og vinnu ásamt því að glæða lífið tilgangi og ljóma. Uppeldi ætti því fyrst og fremst að snúast um að kenna börnunum um hamingjuna og að vera hamingjusöm.

Monty Python eru ævinlega til fyrirmyndar http://www.youtube.com/watch?v=WlBiLNN1NhQ

Mr. Marley bara dásamlegur þegar hann syngur um litlu fuglana þrjá http://www.youtube.com/watch?v=kIjkW6iyXNo

Saturday, March 6, 2010

Julie & Julia

Bíómyndin Julie & Julia hafði mikil áhrif á mig, meðal annars var hún hvatning fyrir mig að byrja að blogga. Fyrir tíma Julie & Julia hafði ég ákveðna fordóma gagnvart bloggsíðum. Þá hafði ég aðallega lesið moggablogg eða fréttatengd blogg þar sem fólk var mjög upptekið af eigin skoðunum og hélt óspart skammarræður yfir mönnum og málefnum. Mér virtist tilgangur þeirra oft á tíðum felast í því hver var fyndnastur eða hver hafði mest rétt fyrir sér. Hæðni og kaldhæðni var vægðarlaust beitt í því tilefni. Í það samfélag vildi ég alls ekki hætta mér enda hugsaði ég með skelfingu til þess að vera kæfð í orðaflaumi skammaryrða ef til þess kæmi að ég óvart hefði "ranga" skoðun.


Ég fór með einni uppáhaldsvinkonu minni að sjá myndina Julie & Julia. Mér verður enn hlýtt um hjartaræturnar þegar ég hugsa til myndarinnar. Ég get heldur ekki alveg lýst því hvað það var sem höfðaði svona sterkt til mín. En á einhvern hátt hitti hún mig beint í hjartastað. Sú staðreynd að matur og matargerð fléttast sterkt inn í söguþráð hennar gæti eitthvað haft með það að gera. Mér finnst dásamlegt að búa til mat og mjög gaman að velta fyrir mér mataræði og uppskriftum. Í gegnum mat og matargerð verða svo mikil menningarleg og félagsleg tengsl. Auk þess hefur matur mikil áhrif á líf og líðan fólks. Hafragrautur og avocado róar til dæmis bæði magann og taugakerfið hjá mér.
Myndin er sönn samtímasaga og byggð á bloggi Julie Powell. http://blogs.salon.com/0001399/ .

Hómópatía

Hómópatía er eitt af mínum stærstu áhugamálum. Ég útskrifaðist árið 2002 sem hómópati LCPH. Ég á margar undursamlegar reynslusögur tengdar þessari grein. Þeim á ég örugglega eftir að deila hér, einni af annarri. Hómópatía er ekki aðeins lifandi og frelsandi hugmyndafræði heldur er hún einnig mjög efnisleg. Hún er byggð á vísindum sem líklega eru töluvert á undan sinni samtíð þar sem ekki eru til mælitæki sem mæla þá efnisorku sem notuð er. Þetta er heildræn, heilsteypt og skapandi leið til þess að lifa við heilsu og í samræmi við umhverfi og náttúrulegt eðli. Hugmyndafræði hómópatíunnar hvílir á aðlöðun, að tengja saman fremur en kljúfa sundur. "Líkt læknar líkt" eru einkunnarorð hómópatíunnar fengin frá Samuel Hahnemann - lækninum sem þróaði þessa aðferð til að einstaklingar nái heilsu í heildrænu samhengi við líf sitt og umhverfi. http://altmed.creighton.edu/Homeopathy/history.htm.
Á Íslandi er einnig hópur öflugra hómópata sem vinna göfugt starf í anda Hahnemanns aðlagað að íslenskum aðstæðum. http://www.homopatar.is/page60/page60.html

Fyrsta færslan

Þá hef ég hafið bloggvegferð mína.
Það verður áhugavert að gera þessa tilraun.
Hér ætla ég að vera með ýmiskonar vangaveltur um áhugamál mín og jafnvel að viðra ýmsar skoðanir. Það verður heldur ekki hjá því komist að hér muni grunnt yfirlit um líf mitt að einhverju leyti koma fram.