Tuesday, July 13, 2010

Skylda eða áhugamál.

Við vorum að spjalla vinkonurnar um óhóflegt magn af samvisku. Samviskan er nauðsynleg og leiðbeinandi í hóflegu magni en stundum fer hún yfir þau mörk. Þjakandi skyldutilfinningin verður þá ráðandi í ákvörðunum dagsins. Svo ef ákveðið er að leggjast upp í sófa með sæng og léttri mynd skellt í tækið þá nær athyglin vart söguþræði myndarinnar því skylduverkin óunnu blikka stöðugt í meðvitundinni. Er þetta athyglisbrestur? Nei, þetta er óhóflegt magn af samvisku.
Það sem gæti virkað á þvílíkt samviskuóhóf er skyldan til þess að eiga sér áhugamál. Stærsti drifkraftur samviskunnar er skyldan. Þá skipta aðrir hlutir en lífið sjálft mestu máli. Þar skortir fullkomlega á þann eld sem sprengir upp hömlur ástríðunnar og fyllir líkamann lífi og krafti svo hann geti sleppt fram af sér beislinu og notið hverrar mínútu sem hann hreyfist. Skyldan gagnvart sjálfum sér ætti að vera frumskyldan.

Tökum dæmi um manneskju sem elskar að dansa og verður að leyfa sér það. Lífið án dansins verður líf án sálar. Sorglegu fréttirnar eru þær að sumar þessar manneskjur hætta að dansa og láta óhóflegt magn af samvisku ná yfirhöndinni.

Mjög margir krónískir lífsstílssjúkdómar sem hrjá okkur í dag stafa af þessum völdum, óhóflegu magni af samvisku og skorti á lífi og sál. Þá verður lífið einber þjónusta við hugmyndir, skoðanir og líf annarra. Við gleymum að elska og gleymum að anda og lifa í takt við okkar eigin hjarta. Við þurfum kraft til þess að hreyfast - lífskrafturinn þarf ekki að byggjast á þjakaðri skyldutilfinningu heldur er líka hægt að hleypa ástríðunni upp á yfirborðið.