Sunday, April 20, 2014

Fjarlægð


Ósannindin, leikritið sem hún lifir
án mótleikara
Hún lifir þar
sveipar sig dulu velgengni, ástar og valda
sannleikurinn er óvinur, afhjúpar

Einmana í dulunni
ósannindin vernda
hún lifir í augum ímyndaðs mótleikara
Döpur augu líta undan
sjá ekki eign sorg


I am terrified of what I might find
if I loose control of my very soul
Better understand that I´m in command

Sunday, October 30, 2011

Óhreinu börnin hennar Evu.


Þau hafa alltaf verið þarna – bara enginn séð þau.
Þau hafa alltaf kallað hátt – bara enginn heyrt í þeim.
Þau hafa alltaf barist við örlög sín – bara enginn fundið fyrir þeim.
Þau hafa alltaf vonast eftir ást – bara enginn elskað þau.
Óhreinu börnin hennar Evu. 

Friday, August 5, 2011

Öxin.

Þegar ég heyri orðið "öxi" dettur mér helst í hug aftaka, þá sérstaklega aftaka á lífi hænsna.
Það er líka fjall, ógnvekjandi fjall staðsett austur á héraði, á milli Berufjarðar og Skriðdals sem heitir Öxi.

Í síðustu viku á leið minni til Reyðarfjarðar að heimsækja Heiði systur ákvað ég að fara Öxina. Þar sem ég er alin upp í Skriðdal vildi ég ólm fara þessa leið og aka um æskuslóðirnar. Það er alltaf notalegt að leyfa nostalgígjunni að flæða um líkamann öðru hvoru. Ég hafði einu sinni áður keyrt Öxina sjálf og það fer um mig þegar ég minnist þeirrar ferðar, þá var þokan svo mikil að nokkrum sinnum stoppaði ég til þess að ganga fram fyrir bílinn og athuga hvort það væri ekki eitthvað framundan. Sonurinn hafði tekið virkan þátt í þeirri angist með mér. Sú minning var hinsvegar ekki jafn lifandi hjá dóttur minni. Hún sat í aftursætinu æðrulaus, lesandi bók með ipod í eyrunum. Hann sat framí og reyndi að sannfæra mig um að Öxin væri alls ekki þess virði að fara. Það var þoka, ekki eins mikil og síðast og ég lifandi í núinu, hugsandi um það sem var handan við Öxina, ákvað að vera hugrökk og ráðast í verkefnið. Þokan var það ofarlega, við myndum ekki lenda í henni nærri strax. Við höfðum ekið framhjá nokkrum ógnvekjandi fjallgörðum á undan, alla leið frá Eyjafjöllum. Suðurleiðin er full af skelfilegum fjöllum sem líta út fyrir að vera lifandi, Þau eru svo há að maður verður lofthræddur að horfa upp á topp. Ég furða mig ekki á því að sögur um álfa og tröll hafi lifnað við í þessu umhverfi, það má til að mynda vel greina álfaþorpin í Eyjafjöllunum. Auk þess er tilfinningin að keyra þessa leið eins og að vera með Gilitrutt á hælunum.
Þokan lá yfir miðju himinháu fjalli í Berufirðinum, Búlandstindi. Það var eins og toppurinn sprytti upp úr himninum þar sem hann trónaði yfir þokunni, líkt og að horfa á Jötunheima. Þar sem við nálguðumst Öxina og hjartað fór að slá hraðar þá hvarflaði að mér að Ragnarrök væru í nánd. Ekkert er tilviljunum háð.
Hjaltalín var í græjunum að syngja "Feels like sugar", þeir voru búnir að vera í spilun í nokkrar klukkustundir á undan, magnað hvað þeir tóna vel við náttúruna, sérstaklega þegar þoka liggur yfir. Stundum  þakkaði ég guði fyrir mystíkina á leiðinni því yfirgnæfandi fjöllin vöktu stundum upp bæði ótta og skelfingu innra með mér. Ég var hinsvegar fyrirmyndarmóðir og lét ekki á nokkru bera, bar mig vel og var yfirvegunin uppmáluð. Mystíkin mildaði áhrifin.

Við nálguðumst fyrstu brekkuna og sonurinn tjáði mér það að hann væri ekkert fyrir að taka áhættur, ég svaraði honum svona salíróleg að minningin væri nú líklega verri en þetta væri í raun auk þess sem þokan væri mun minni núna en síðast þegar við fórum yfir Öxi og á meðan ég brosti til hans snerist maginn á mér við. Við mættum fyrstu brekkunni sem stefndi lárétt upp í himininn, ég minntist þess síðast þegar ég ók þarna á örmjóum malarveginum þá mættum við risastórum flutningabíl frá Svefni og heilsu sem brunaði á ógnarhraða framhjá okkur. "Howling hearts, quiet enemies" ómaði í hátölurunum, og við stefndum áfram til himins og inn í þokuna, "gravity holds, it holds me down" og ég hugsaði að sennilega sé það rétt. "Completed life with limited time" ómaði inn í þokunni og við stefndum aftur beint til himins, kannski var þetta táknrænt eftir allt og síðasta lagið á disknum. Sonurinn tjáði mér það mjög skýrt að minningin hefði alls ekki verið skelfilegri en raunin. Upp, upp, ókum við í gegnum blindhæðir, blindbeygjur og í þokunni. "Is it a sin that I cannot stop, is it a dream that I cannot top". Þetta var eins og vera staddur í miðri Harry Potter mynd og maður beið bara eftir að óvættir birtust og hræddu úr okkur líftóruna, úff ég gæfi mikið fyrir að vita hvað gerðist næst. Sumir segja að ofbeldismenningin sé lituð af ofbeldismyndum, ég held að uppspretta óttans sé bíómyndir, ef þær væru ekki til þá gætum við lifað eins og Eva hefði aldrei bitið í eplið. "Completed life has unlimited time,  ..." hélt Hjaltalín áfram eins og allt væri breytt. "...unlimited breathing time"  ég áttaði mig á því að ég hafði ekki andað í nokkurn tíma. Ferðin upp í himininn hélt áfram eins og hún ætlaði engan endi að taka. Hjaltalín fjaraði út. Ekki var auðveldara að fara niður og sjá ekki hvert brekkan stefndi, eins og að keyra fram af bjargbrún við hvert fótmál.

Loksins, loksins létti til og heimsmyndin tók stökkbreytingum. Hin fögru Skriðuvötn blöstu við og kindurnar stóðu í vegi fyrir okkur, við reyndum að blanda við þær geði en þær deildu ekki þeim áhuga. Ummm yndisfagra sveitin mín - þetta hafði allt verið þess virði en samt eins og að fæða barn, maður er ekki til í það strax aftur.

http://www.youtube.com/watch?v=pOwVRx9Qo_U

Tuesday, June 14, 2011

lifandi orð




Hafiði einhvern tíman fundið hvernig orðin streyma?
þau flæða og geyma
merkingu sem breiðir úr sér.
Hefur hjartsláttur stjórnast af orðum um heima?
Heima sem gleyma
að þú ert hér hjá mér.
Orðin þau sveima um og láta mig dreyma
drauminn sem er ekki til hér.

Wednesday, April 6, 2011

Að skilgreina.

Viðvörunarbjöllurnar hjá mér hringja sjaldan hærra en þegar ég heyri raddir um "hlutina eins og þeir eru " og inn í því mengi er "ég" jafnvel líka skilgreind. Skilgreiningar eru góðar og nauðsynlegar þegar verið er að skilgreina hugtök, hugmyndir, hluti og þess háttar, með það að markmiði að við skiljum hvort annað betur. En það sama gildir ekki um mannfólk; sú viðleitni að setja manneskjur í kassa er endalaust vindmyllustríð.
Einföldun á mannfólki er líklega oft sprottin af ótta. Þá er hægt að koma með staðhæfingar um hvað er "óvenjulegt" og "skrítið", í því augnamiði að tilheyra sjálfur ekki þeim hópi. Staðhæfingar koma gjarnan fram um að konur séu svona, mæður á annan hátt, kennarar öðruvísi og hómópatar ólíkir þeim. Þá eru einstæðar mæður alveg sér kapituli. Það er til töluvert af rannsóknum sem skilgreina þann hóp á allaveganna hátt, en samt ekki nógu og allaveganna til þess að "ég" finni mig þar. Nei takk, ég vil ekki gefa öðrum það vald að skilgreina mig eða gera mér upp hugsanir og tilfinningar, ég skapa mína tilveru sjálf í samhengi við umhverfi mitt. 
Reynsla okkar af að vera manneskja er svo endalaust margbreytileg, hún er breytileg fá degi til dags og frá mínútu til mínútu, hver og ein manneskja er svo mismunandi og allaveganna. Að ekki sé talað um þá gífurlegu fjölbreytni sem er á milli allra þessara margbreytilegu manneskja.
Skilgreiningaráráttan hefur tilhneigingu til þess að festa okkur í sessi sem einsleitar manneskjur,"í sínum rétta hópi", það er ósk hennar. Sú frelsistregða sem birtist þar beinist ekki eingöngu að því að hverri og einni manneskju sé hollast að vera alltaf eins, heldur líka því að öllum manneskjum sé best að vera sem líkastar.
Normið er hættulegt, það er útilokandi. Það kallar á endalausa höfnun og stöðuga leit að því sem hefur verið hafnað. Þörfin er sú að andlega -þ.e. bæði huglæga og tilfinningalega- rýmið í heiminum sé nóg fyrir hverja manneskju eins og hún raunverulega er. Þá andar fólk dýpra sem skapar bæði umhyggjusamari vettvang og sterkari þroskagrundvöll. Því meira pláss til að anda því meiri mennska.

Jewel syngur um styrkinn sem felst í því að vera fylginn sjálfum sér og lifa í trausti ásamt mikilvægi þess að allir hafi einhvern sem stendur með þeim; í laginu Hands;
For someone must stand up for what´s right
Cause where there´s a man who has no voice
There ours shall go singing
My hands are small I know
But they´re not yours, they are my own.
http://www.youtube.com/watch?v=AfsS3pIDBfw

Monday, January 10, 2011

hlustaði

Ég hlustaði á konu tala um að láta hjartað ráða för og það fékk mig til að hugsa. Skynsemi hugans er stundum svo mikill skaðvaldur, þá gleymum við að gera ráð fyrir þessu mannlega - tilfinningunum. En skilningur hjartans eða innsæi og innri tilfinning slær í takt við stærra samhengi -alheimsmáttinn.

Ég man líka eftir manni sem sagði; við getum ekki leyft okkur að hlusta á "gut feeling" eða innri tilfinningu okkar vegna þess sú tilfinning er oft sködduð af slæmri reynslu. Það fékk mig líka til að hugsa. "Gut feeling" getur þá verið eins og sært dýr og bregst þá við samkvæmt því.

Núna finnst mér konan meika meiri sense. Hennar hugmynd um lífið virkar betur. Særðar tilfinningar má lækna með því að hafna þeim ekki og gefa þeim rödd og þar með farveg. Hún sagði líka að það væri gott að sleppa tökunum á útkomunni og hafa hugrekki til þess að breyta samkvæmt hjartanu eða innsæinu. Niðurstaðan birtist í samhengi við fleiri breytur. Í samfélagi við aðra koma fleiri að því að hafa áhrif á útkomuna. Allir þurfa sitt rými til þess að skapa og það er nóg til af því.

Oft þarf hugrekki til þess að fylgja innsæi sínu þegar það er í ósamræmi við skynsemi hugans. Stundum er hjartað ekki eingöngu í togstreitu við eigin skynsemi heldur allra hinna líka. Dregur það mátt úr skynseminni að hún byggir á sameiginlegri hugsun sem flestir samþykkja og mótar þannig hefðina?


Djúpa viskan sem allir hafa, dvelur samt sem áður í innsæinu, sem mátar saman þá þekkingu sem er til staðar innra með manneskjunni.
Skynsemi hugans hugsar meira um útkomuna. Hún er stjórnsöm og líka oft grimm.

Nina Simone syngur um hvernig innri taktur okkar er taktur náttúrunnar og að við lifum í tengslum við stærra samhengi og æðra lögmál.
http://www.youtube.com/watch?v=LOrqDx5dOp4&feature=related

Saturday, September 11, 2010

Afdrifarík fyrsta reynslan mín af hómópatíu.

Mig langar til að deila hér þeirri "tilviljanakenndu" atburðarás sem varð til þess að ég ákvað að fara læra hómópatíu. Fyrir um 20 árum síðan fór ég að hafa áhuga á að bæta líf mitt með lífstílsbreytingum. Á þeim tíma voru óhefðbundnar lækningar mér mjög framandi hugmynd. Ég hafði alist upp við að móðir mín lagði áherslu á heilnæmt mataræði en fékk ekki áhuga á því sjálf fyrr en löngu seinna. Upp úr tvítugu fór ég að hafa áhuga á að breyta mataræði mínu sem jókst stigvaxandi í beinum tengslum við þá auknu vellíðan sem ég fann eftir því sem ég vandaði mig meira við fæðuvalið. Það breytti svo öllu þegar börnin fæddust.
Sonur minn fæddist árið 1995 og dóttir mín ári síðar. Við það tvíelfdist áhugi minn á mataræði og skynsamlegum lífstíl. Mig langaði að gera það sem í mínu valdi stæði til þess að líf barnanna sem mér hafði verið treyst fyrir, yrði sem best. Það fólst meðal annars í því að huga vel að mataræði til þess að byggja upp hjá þeim sterkt ónæmiskerfi. Á þeim tíma tók ég virkan þátt í starfi með grasrótarfélaginu Barnamáli sem var áhugafélag um brjóstagjöf og vöxt og þroska barna. Þar kynntist ég dásamlegum konum sem studdu nýbakaðar mæður við brjóstagjöf. Sá stuðningur var veittur "frá móður til móður". Fyrirmyndin að þessum félagi er La Leche Leaque  http://www.llli.org/  sem eru alþjóðaáhugasamtök um brjóstagjöf. Þetta starf var virkilega fræðandi og gefandi enda fátt í lífinu fallegra en móðir með barn á brjósti. Við brjóstgjöf losna sömu hormón hjá móðurinni og losna hjá fólki við ástundun hugleiðslu. Til eru margar hlýlegar reynslusögur mæðra sem segja frá því að þær hafi komist í tengsl við áhugasvið sitt og ástríðu meðan á brjóstagjöf stóð. Sjálfsþekking þeirra jókst. Samt þarf að hafa í huga að ekki eru allar konur sem geta eða vilja hafa börn sín á brjósti og það er mikilvægt að hver kona sé sátt við val sitt og stöðu í þeim efnum og að þær fái stuðning til þess að hafa hlutina eins og þeim hentar best. Annar kostur brjóstagjafar er að hún styrkir ónæmiskerfi barnanna og þau þurfa þá síður inngrip í formi lyfja.

Í kjölfarið á því að dóttir mín, þá tveggja ára, sem ævinlega var full af orku og lífsgleði, þurfti í fyrsta skipti að fá pensilín, fékk hún stöðugt nefrennsli. Vinkona mín í Barnamáli benti mér á að fara með hana til hómópata til þess að fá lausn á þessu. Ég hugsaði mig ekki lengi um og pantaði fljótlega tíma. Þar sem ég sat í stofunni hjá hómópatanum með bæði börnin með mér og lýsti einkennum dóttur minnar af völdum pensilínsins þá fylgdist hómópatinn vel með átökum systkinanna sem voru ekki allskostar sátt. Hún spyr mig svo hvort sonurinn sé afbrýðissamur sem ég játti. Þá kom hún með þessa ógleymanlegu tillögu "villtu ekki fá eitthvað við því?". Ég tók andann á lofti og næstum hvíslaði "er hægt að fá eitthvað við afbrýðissemi?" og mér fannst ég ekki þurfa að vita meira um lífið. Þetta var málið.  Ég yfirgaf hómópatann og fór heim með remedíur upp á vasann. Ég gaf börnunum remedíuskammt eins og fyrir hafði verið lagt. Á sama andartaki og sonur minn fékk remedíuna upp í sig þá gerðist eitthvað. Hann breyttist og slakaði á. Ég þorði varla að trúa þessu og alls ekki að segja frá því fyrst um sinn.

Þremur mánuðum seinna var ég byrjuð í skólanum að læra þetta undursamlega fag. Þá hét skólinn The College of Practical Homoeopathy, en í dag heitir hann Homoeopathy College http://www.homoeopathytraining.co.uk/. Fyrsta hálfa árið var ég mállaus því þetta voru svo ótrúleg fræði og öðruvísi en allt sem ég hafði lært. Í náminu þurfti ég að kollvarpa svo mörgu sem tilheyrði hefðbundnu og rótgrónu trúarkerfi mínu og fá nýtt og öðruvísi inn í staðinn. Það var bókstaflega eins og að vera hent fram af bjargi. Öll fjögur árin í skólanum voru svo áhugaverð og skemmtileg að ég hlakkaði ævinlega til að mæta í skólann. Ég myndaði djúp tengsl við fagið og ekkert finnst mér jafn áhugavert og að grúska í hómópatíunni - sinna kúnnum, hitta kollega og stúdera.

Á þennan hátt þróaðist þessi hluti lífs míns, mér alveg að óvörum. Söngkonan Enya syngur um að tíminn sé það eina sem geti sagt til um hver leið okkar í lífnu sé. "Who can say where the road goes, where the day flows, only time." http://www.youtube.com/watch?v=v0NoHN1TU5I&feature=related