Saturday, March 20, 2010

Líkt læknar líkt

Einkunnarorð hómópatíunnar líkt læknar líkt eru kennd við Samuel Hahnemann (1755-1843).


Það merkir að ef eitthvað veikir manneskju þá mun eitthvað hliðstætt í smáskammtaformi hvetja líkama hennar til þess að leiðrétta þá skekkju sem dregur úr henni mátt.


Skekkjan verður þegar eðlileg virkni manneskjunnar - hvort sem það er líkamleg, huglæg eða andleg virkni - afvegaleiðist og vinnur á þann hátt að manneskjan upplifir þverrandi lífskraft.


Smáskammtur er efni eða orka sem er útþynnt, jafnvel svo mikið að það mælist ekki með nútímamælitækjum. Í útþynntu formi virkar smáskammturinn eins og svar við því sem orsakaði skekkju manneskjunnar og hvetur þá líkama, huga og sál til leiðréttingar.


Hómópatían vinnur með orsök einkennanna svo þau leiðréttist. Hún bælir ekki einkenni og telur sér trú um að nú sé allt í lagi þar sem einkennin eru ekki sýnileg lengur.

Tökum dæmi af einstaklingi sem á erfitt með svefn. Hann er fullur streitu, hendur hans skjálfa og hann virðist nokkuð hvatvís. Þetta eru lík einkenni og of mikil kaffidrykkja gæti valdið. Remedía sem unnin er úr kaffi er þá hugsanlega svar við þessum einkennum. Þegar viðkomandi fær kaffi-remedíu þá minnir hún líkama, huga og sál á skekkjuna sem myndast hefur. Manneskjan notar þá sinn eigin heilunarkraft til þess að leiðrétta skekkjuna og við það hverfa einkennin. Heilunarkraftur er viska sem dvelur í frumum, undirmeðvitund og lífskrafti. Manneskjan þarf því ekki að nota meðvitund sína heldur vinnur heilunarkerfi hennar af sjálfsdáðum. Við erum þannig uppbyggð að líf okkar hefur tilhneigingu til þess að leita í jafnvægi. Einkenni einstaklingsins eru á þann hátt tjáning líkamans og benda til þess að leiðréttingar er þörf.

Friday, March 19, 2010

Súkkulaði - fæða guðanna.

Það gleður mig ósegjanlega þegar ég hugsa til þess að ég bý í nágrenni Mosfellsbakarís. Þar inni lifir tilfinning sem hugsanlega líkist paradís. Þar er búið til besta og fallegasta súkkulaði sem mögulega er hægt að hugsa sér. Súkkulaði-listaverkin framkalla innra með mér algjöra sátt við staðsetningu mína. Þessi ólýsanlegi staður gleymir heldur ekki upprunanum því uppi á vegg er stór skjár sem sýnir myndir af kakóbaunum í vinnslu og suðuramerísk tónlist gerir mann hljóðan.
Fyrir tvöþúsund árum síðan voru kakóbaunir fyrst uppgötvaðar í Mið- og Suðurameríku . fimmhundruð árum seinna bárust þær til Spánar og dreifðust þá um Evrópu. Í dag koma flestar kakóbaunirnar frá Fílabeinsströndinni. Það sætir furðu minnar að flestar eru þær unnar í Bandaríkjunum og Evrópu.
Við Brazilíska tóna http://www.youtube.com/watch?v=suOcREUVFtA

Það eru ekki margar bíómyndir sem festast mér í minni eftir að ég hef horft á þær. Oft á tíðum hverfa þær fljótlega úr huga mér. Chocholat er ein þeirra mynda sem virkilega er þess virði að sjá og jafnvel eiga í vel völdu heimilissafni. Hún verður eins og "góð minning". Myndin fjallar um unga móður sem flytur með dóttur sína til lítils þorps í Frakklandi. Það var þungt yfir mannlífi þorpsins og fólkið óhamingjusamt. Það breytti hinsvegar öllu þegar unga konan opnar súkkulaðibúð í þorpinu. Þar vann hún súkkulaði-afurðir sínar frá grunni af mikilli alúð. Andrúmsloftið í þorpinu lyftist og hamingjan læðist inn með ilmandi súkkulaði bragðbættu með kærleika.
Hér er trailer
http://www.youtube.com/watch?v=KEzzbBc7Tw4

Monday, March 15, 2010

Áhyggjulaus!

Eitt sinn sat ég á fyrirlestri þar sem var verið að kenna okkur að finna innri vellíðan. Aðferðin kom á óvart og var mjög praktísk. Við áttum að loka augunum og hugsa aftur til æskunnar.
"Hver er fyrsta minning þín þar sem þú ert algerlega áhyggjulaus?" spurði kennarinn.
Þegar minningin var fundin rifjaðist upp tilfinningin sem fylgdi henni, að vera áhyggjulaus. Ja hérna, hugsaði ég með mér, langt síðan ég hef upplifað svona mikið frelsi.

Eftir það get ég ævinlega sótt minninguna þar sem ég hleyp um í náttúrunni fullkomlega meðvituð um vindinn, lyktina og hljóðið sem umlak mig en algjörlega ómeðvituð um hverjar þær áhyggjur sem hægt er að láta sér detta í hug.

Monday, March 8, 2010

Hamingja & uppeldi

Uppeldi er efni sem ég hef óþrjótandi áhuga á. Flest sem snýr að uppeldi og að verða betri manneskja nær athygli minni. Ein af þeim konum sem ég lít upp til varðandi uppeldis- og kennslufræði er Nel Noddings http://www.infed.org/thinkers/noddings.htm . Hún minnir að sumu leyti á Evu Joly í útliti og er engu minni kvenskörungur. Ég las ógleymanlega bók eftir hana sem heitir Happiness and Education, http://ebooks.ebookmall.com/ebook/167838-ebook.htm. Þar segir hún að þegar foreldrar eru spurðir hvað þeir vilji helst til handa börnum sínum er svarið yfirleitt hamingja. Ef þau eru ekki hamingjusöm verða aðrir hlutir hjóm eitt. Því furðar hún sig á því að hamingjan sé ekki grundvallarmarkmið í námskrám skólanna.

Ég man þá tíð, sérstaklega þegar ég var unglingur, þá fannst mér það hljóta að vera skortur á visku að vera hamingjusamur. Ég var einfaldlega sannfærð um að hamingjan væri ekki til.
Nú er ég sammála Noddings. Hamingjan er viska. Hún auðveldar bæði nám og vinnu ásamt því að glæða lífið tilgangi og ljóma. Uppeldi ætti því fyrst og fremst að snúast um að kenna börnunum um hamingjuna og að vera hamingjusöm.

Monty Python eru ævinlega til fyrirmyndar http://www.youtube.com/watch?v=WlBiLNN1NhQ

Mr. Marley bara dásamlegur þegar hann syngur um litlu fuglana þrjá http://www.youtube.com/watch?v=kIjkW6iyXNo

Saturday, March 6, 2010

Julie & Julia

Bíómyndin Julie & Julia hafði mikil áhrif á mig, meðal annars var hún hvatning fyrir mig að byrja að blogga. Fyrir tíma Julie & Julia hafði ég ákveðna fordóma gagnvart bloggsíðum. Þá hafði ég aðallega lesið moggablogg eða fréttatengd blogg þar sem fólk var mjög upptekið af eigin skoðunum og hélt óspart skammarræður yfir mönnum og málefnum. Mér virtist tilgangur þeirra oft á tíðum felast í því hver var fyndnastur eða hver hafði mest rétt fyrir sér. Hæðni og kaldhæðni var vægðarlaust beitt í því tilefni. Í það samfélag vildi ég alls ekki hætta mér enda hugsaði ég með skelfingu til þess að vera kæfð í orðaflaumi skammaryrða ef til þess kæmi að ég óvart hefði "ranga" skoðun.


Ég fór með einni uppáhaldsvinkonu minni að sjá myndina Julie & Julia. Mér verður enn hlýtt um hjartaræturnar þegar ég hugsa til myndarinnar. Ég get heldur ekki alveg lýst því hvað það var sem höfðaði svona sterkt til mín. En á einhvern hátt hitti hún mig beint í hjartastað. Sú staðreynd að matur og matargerð fléttast sterkt inn í söguþráð hennar gæti eitthvað haft með það að gera. Mér finnst dásamlegt að búa til mat og mjög gaman að velta fyrir mér mataræði og uppskriftum. Í gegnum mat og matargerð verða svo mikil menningarleg og félagsleg tengsl. Auk þess hefur matur mikil áhrif á líf og líðan fólks. Hafragrautur og avocado róar til dæmis bæði magann og taugakerfið hjá mér.
Myndin er sönn samtímasaga og byggð á bloggi Julie Powell. http://blogs.salon.com/0001399/ .

Hómópatía

Hómópatía er eitt af mínum stærstu áhugamálum. Ég útskrifaðist árið 2002 sem hómópati LCPH. Ég á margar undursamlegar reynslusögur tengdar þessari grein. Þeim á ég örugglega eftir að deila hér, einni af annarri. Hómópatía er ekki aðeins lifandi og frelsandi hugmyndafræði heldur er hún einnig mjög efnisleg. Hún er byggð á vísindum sem líklega eru töluvert á undan sinni samtíð þar sem ekki eru til mælitæki sem mæla þá efnisorku sem notuð er. Þetta er heildræn, heilsteypt og skapandi leið til þess að lifa við heilsu og í samræmi við umhverfi og náttúrulegt eðli. Hugmyndafræði hómópatíunnar hvílir á aðlöðun, að tengja saman fremur en kljúfa sundur. "Líkt læknar líkt" eru einkunnarorð hómópatíunnar fengin frá Samuel Hahnemann - lækninum sem þróaði þessa aðferð til að einstaklingar nái heilsu í heildrænu samhengi við líf sitt og umhverfi. http://altmed.creighton.edu/Homeopathy/history.htm.
Á Íslandi er einnig hópur öflugra hómópata sem vinna göfugt starf í anda Hahnemanns aðlagað að íslenskum aðstæðum. http://www.homopatar.is/page60/page60.html

Fyrsta færslan

Þá hef ég hafið bloggvegferð mína.
Það verður áhugavert að gera þessa tilraun.
Hér ætla ég að vera með ýmiskonar vangaveltur um áhugamál mín og jafnvel að viðra ýmsar skoðanir. Það verður heldur ekki hjá því komist að hér muni grunnt yfirlit um líf mitt að einhverju leyti koma fram.