Þegar ég heyri orðið "öxi" dettur mér helst í hug aftaka, þá sérstaklega aftaka á lífi hænsna.
Það er líka fjall, ógnvekjandi fjall staðsett austur á héraði, á milli Berufjarðar og Skriðdals sem heitir Öxi.
Í síðustu viku á leið minni til Reyðarfjarðar að heimsækja Heiði systur ákvað ég að fara Öxina. Þar sem ég er alin upp í Skriðdal vildi ég ólm fara þessa leið og aka um æskuslóðirnar. Það er alltaf notalegt að leyfa nostalgígjunni að flæða um líkamann öðru hvoru. Ég hafði einu sinni áður keyrt Öxina sjálf og það fer um mig þegar ég minnist þeirrar ferðar, þá var þokan svo mikil að nokkrum sinnum stoppaði ég til þess að ganga fram fyrir bílinn og athuga hvort það væri ekki eitthvað framundan. Sonurinn hafði tekið virkan þátt í þeirri angist með mér. Sú minning var hinsvegar ekki jafn lifandi hjá dóttur minni. Hún sat í aftursætinu æðrulaus, lesandi bók með ipod í eyrunum. Hann sat framí og reyndi að sannfæra mig um að Öxin væri alls ekki þess virði að fara. Það var þoka, ekki eins mikil og síðast og ég lifandi í núinu, hugsandi um það sem var handan við Öxina, ákvað að vera hugrökk og ráðast í verkefnið. Þokan var það ofarlega, við myndum ekki lenda í henni nærri strax. Við höfðum ekið framhjá nokkrum ógnvekjandi fjallgörðum á undan, alla leið frá Eyjafjöllum. Suðurleiðin er full af skelfilegum fjöllum sem líta út fyrir að vera lifandi, Þau eru svo há að maður verður lofthræddur að horfa upp á topp. Ég furða mig ekki á því að sögur um álfa og tröll hafi lifnað við í þessu umhverfi, það má til að mynda vel greina álfaþorpin í Eyjafjöllunum. Auk þess er tilfinningin að keyra þessa leið eins og að vera með Gilitrutt á hælunum.
Þokan lá yfir miðju himinháu fjalli í Berufirðinum, Búlandstindi. Það var eins og toppurinn sprytti upp úr himninum þar sem hann trónaði yfir þokunni, líkt og að horfa á Jötunheima. Þar sem við nálguðumst Öxina og hjartað fór að slá hraðar þá hvarflaði að mér að Ragnarrök væru í nánd. Ekkert er tilviljunum háð.
Hjaltalín var í græjunum að syngja "Feels like sugar", þeir voru búnir að vera í spilun í nokkrar klukkustundir á undan, magnað hvað þeir tóna vel við náttúruna, sérstaklega þegar þoka liggur yfir. Stundum þakkaði ég guði fyrir mystíkina á leiðinni því yfirgnæfandi fjöllin vöktu stundum upp bæði ótta og skelfingu innra með mér. Ég var hinsvegar fyrirmyndarmóðir og lét ekki á nokkru bera, bar mig vel og var yfirvegunin uppmáluð. Mystíkin mildaði áhrifin.
Við nálguðumst fyrstu brekkuna og sonurinn tjáði mér það að hann væri ekkert fyrir að taka áhættur, ég svaraði honum svona salíróleg að minningin væri nú líklega verri en þetta væri í raun auk þess sem þokan væri mun minni núna en síðast þegar við fórum yfir Öxi og á meðan ég brosti til hans snerist maginn á mér við. Við mættum fyrstu brekkunni sem stefndi lárétt upp í himininn, ég minntist þess síðast þegar ég ók þarna á örmjóum malarveginum þá mættum við risastórum flutningabíl frá Svefni og heilsu sem brunaði á ógnarhraða framhjá okkur. "Howling hearts, quiet enemies" ómaði í hátölurunum, og við stefndum áfram til himins og inn í þokuna, "gravity holds, it holds me down" og ég hugsaði að sennilega sé það rétt. "Completed life with limited time" ómaði inn í þokunni og við stefndum aftur beint til himins, kannski var þetta táknrænt eftir allt og síðasta lagið á disknum. Sonurinn tjáði mér það mjög skýrt að minningin hefði alls ekki verið skelfilegri en raunin. Upp, upp, ókum við í gegnum blindhæðir, blindbeygjur og í þokunni. "Is it a sin that I cannot stop, is it a dream that I cannot top". Þetta var eins og vera staddur í miðri Harry Potter mynd og maður beið bara eftir að óvættir birtust og hræddu úr okkur líftóruna, úff ég gæfi mikið fyrir að vita hvað gerðist næst. Sumir segja að ofbeldismenningin sé lituð af ofbeldismyndum, ég held að uppspretta óttans sé bíómyndir, ef þær væru ekki til þá gætum við lifað eins og Eva hefði aldrei bitið í eplið. "Completed life has unlimited time, ..." hélt Hjaltalín áfram eins og allt væri breytt. "...unlimited breathing time" ég áttaði mig á því að ég hafði ekki andað í nokkurn tíma. Ferðin upp í himininn hélt áfram eins og hún ætlaði engan endi að taka. Hjaltalín fjaraði út. Ekki var auðveldara að fara niður og sjá ekki hvert brekkan stefndi, eins og að keyra fram af bjargbrún við hvert fótmál.
Loksins, loksins létti til og heimsmyndin tók stökkbreytingum. Hin fögru Skriðuvötn blöstu við og kindurnar stóðu í vegi fyrir okkur, við reyndum að blanda við þær geði en þær deildu ekki þeim áhuga. Ummm yndisfagra sveitin mín - þetta hafði allt verið þess virði en samt eins og að fæða barn, maður er ekki til í það strax aftur.
http://www.youtube.com/watch?v=pOwVRx9Qo_U