Monday, January 10, 2011

hlustaði

Ég hlustaði á konu tala um að láta hjartað ráða för og það fékk mig til að hugsa. Skynsemi hugans er stundum svo mikill skaðvaldur, þá gleymum við að gera ráð fyrir þessu mannlega - tilfinningunum. En skilningur hjartans eða innsæi og innri tilfinning slær í takt við stærra samhengi -alheimsmáttinn.

Ég man líka eftir manni sem sagði; við getum ekki leyft okkur að hlusta á "gut feeling" eða innri tilfinningu okkar vegna þess sú tilfinning er oft sködduð af slæmri reynslu. Það fékk mig líka til að hugsa. "Gut feeling" getur þá verið eins og sært dýr og bregst þá við samkvæmt því.

Núna finnst mér konan meika meiri sense. Hennar hugmynd um lífið virkar betur. Særðar tilfinningar má lækna með því að hafna þeim ekki og gefa þeim rödd og þar með farveg. Hún sagði líka að það væri gott að sleppa tökunum á útkomunni og hafa hugrekki til þess að breyta samkvæmt hjartanu eða innsæinu. Niðurstaðan birtist í samhengi við fleiri breytur. Í samfélagi við aðra koma fleiri að því að hafa áhrif á útkomuna. Allir þurfa sitt rými til þess að skapa og það er nóg til af því.

Oft þarf hugrekki til þess að fylgja innsæi sínu þegar það er í ósamræmi við skynsemi hugans. Stundum er hjartað ekki eingöngu í togstreitu við eigin skynsemi heldur allra hinna líka. Dregur það mátt úr skynseminni að hún byggir á sameiginlegri hugsun sem flestir samþykkja og mótar þannig hefðina?


Djúpa viskan sem allir hafa, dvelur samt sem áður í innsæinu, sem mátar saman þá þekkingu sem er til staðar innra með manneskjunni.
Skynsemi hugans hugsar meira um útkomuna. Hún er stjórnsöm og líka oft grimm.

Nina Simone syngur um hvernig innri taktur okkar er taktur náttúrunnar og að við lifum í tengslum við stærra samhengi og æðra lögmál.
http://www.youtube.com/watch?v=LOrqDx5dOp4&feature=related