Wednesday, April 6, 2011

Að skilgreina.

Viðvörunarbjöllurnar hjá mér hringja sjaldan hærra en þegar ég heyri raddir um "hlutina eins og þeir eru " og inn í því mengi er "ég" jafnvel líka skilgreind. Skilgreiningar eru góðar og nauðsynlegar þegar verið er að skilgreina hugtök, hugmyndir, hluti og þess háttar, með það að markmiði að við skiljum hvort annað betur. En það sama gildir ekki um mannfólk; sú viðleitni að setja manneskjur í kassa er endalaust vindmyllustríð.
Einföldun á mannfólki er líklega oft sprottin af ótta. Þá er hægt að koma með staðhæfingar um hvað er "óvenjulegt" og "skrítið", í því augnamiði að tilheyra sjálfur ekki þeim hópi. Staðhæfingar koma gjarnan fram um að konur séu svona, mæður á annan hátt, kennarar öðruvísi og hómópatar ólíkir þeim. Þá eru einstæðar mæður alveg sér kapituli. Það er til töluvert af rannsóknum sem skilgreina þann hóp á allaveganna hátt, en samt ekki nógu og allaveganna til þess að "ég" finni mig þar. Nei takk, ég vil ekki gefa öðrum það vald að skilgreina mig eða gera mér upp hugsanir og tilfinningar, ég skapa mína tilveru sjálf í samhengi við umhverfi mitt. 
Reynsla okkar af að vera manneskja er svo endalaust margbreytileg, hún er breytileg fá degi til dags og frá mínútu til mínútu, hver og ein manneskja er svo mismunandi og allaveganna. Að ekki sé talað um þá gífurlegu fjölbreytni sem er á milli allra þessara margbreytilegu manneskja.
Skilgreiningaráráttan hefur tilhneigingu til þess að festa okkur í sessi sem einsleitar manneskjur,"í sínum rétta hópi", það er ósk hennar. Sú frelsistregða sem birtist þar beinist ekki eingöngu að því að hverri og einni manneskju sé hollast að vera alltaf eins, heldur líka því að öllum manneskjum sé best að vera sem líkastar.
Normið er hættulegt, það er útilokandi. Það kallar á endalausa höfnun og stöðuga leit að því sem hefur verið hafnað. Þörfin er sú að andlega -þ.e. bæði huglæga og tilfinningalega- rýmið í heiminum sé nóg fyrir hverja manneskju eins og hún raunverulega er. Þá andar fólk dýpra sem skapar bæði umhyggjusamari vettvang og sterkari þroskagrundvöll. Því meira pláss til að anda því meiri mennska.

Jewel syngur um styrkinn sem felst í því að vera fylginn sjálfum sér og lifa í trausti ásamt mikilvægi þess að allir hafi einhvern sem stendur með þeim; í laginu Hands;
For someone must stand up for what´s right
Cause where there´s a man who has no voice
There ours shall go singing
My hands are small I know
But they´re not yours, they are my own.
http://www.youtube.com/watch?v=AfsS3pIDBfw