Saturday, September 11, 2010

Afdrifarík fyrsta reynslan mín af hómópatíu.

Mig langar til að deila hér þeirri "tilviljanakenndu" atburðarás sem varð til þess að ég ákvað að fara læra hómópatíu. Fyrir um 20 árum síðan fór ég að hafa áhuga á að bæta líf mitt með lífstílsbreytingum. Á þeim tíma voru óhefðbundnar lækningar mér mjög framandi hugmynd. Ég hafði alist upp við að móðir mín lagði áherslu á heilnæmt mataræði en fékk ekki áhuga á því sjálf fyrr en löngu seinna. Upp úr tvítugu fór ég að hafa áhuga á að breyta mataræði mínu sem jókst stigvaxandi í beinum tengslum við þá auknu vellíðan sem ég fann eftir því sem ég vandaði mig meira við fæðuvalið. Það breytti svo öllu þegar börnin fæddust.
Sonur minn fæddist árið 1995 og dóttir mín ári síðar. Við það tvíelfdist áhugi minn á mataræði og skynsamlegum lífstíl. Mig langaði að gera það sem í mínu valdi stæði til þess að líf barnanna sem mér hafði verið treyst fyrir, yrði sem best. Það fólst meðal annars í því að huga vel að mataræði til þess að byggja upp hjá þeim sterkt ónæmiskerfi. Á þeim tíma tók ég virkan þátt í starfi með grasrótarfélaginu Barnamáli sem var áhugafélag um brjóstagjöf og vöxt og þroska barna. Þar kynntist ég dásamlegum konum sem studdu nýbakaðar mæður við brjóstagjöf. Sá stuðningur var veittur "frá móður til móður". Fyrirmyndin að þessum félagi er La Leche Leaque  http://www.llli.org/  sem eru alþjóðaáhugasamtök um brjóstagjöf. Þetta starf var virkilega fræðandi og gefandi enda fátt í lífinu fallegra en móðir með barn á brjósti. Við brjóstgjöf losna sömu hormón hjá móðurinni og losna hjá fólki við ástundun hugleiðslu. Til eru margar hlýlegar reynslusögur mæðra sem segja frá því að þær hafi komist í tengsl við áhugasvið sitt og ástríðu meðan á brjóstagjöf stóð. Sjálfsþekking þeirra jókst. Samt þarf að hafa í huga að ekki eru allar konur sem geta eða vilja hafa börn sín á brjósti og það er mikilvægt að hver kona sé sátt við val sitt og stöðu í þeim efnum og að þær fái stuðning til þess að hafa hlutina eins og þeim hentar best. Annar kostur brjóstagjafar er að hún styrkir ónæmiskerfi barnanna og þau þurfa þá síður inngrip í formi lyfja.

Í kjölfarið á því að dóttir mín, þá tveggja ára, sem ævinlega var full af orku og lífsgleði, þurfti í fyrsta skipti að fá pensilín, fékk hún stöðugt nefrennsli. Vinkona mín í Barnamáli benti mér á að fara með hana til hómópata til þess að fá lausn á þessu. Ég hugsaði mig ekki lengi um og pantaði fljótlega tíma. Þar sem ég sat í stofunni hjá hómópatanum með bæði börnin með mér og lýsti einkennum dóttur minnar af völdum pensilínsins þá fylgdist hómópatinn vel með átökum systkinanna sem voru ekki allskostar sátt. Hún spyr mig svo hvort sonurinn sé afbrýðissamur sem ég játti. Þá kom hún með þessa ógleymanlegu tillögu "villtu ekki fá eitthvað við því?". Ég tók andann á lofti og næstum hvíslaði "er hægt að fá eitthvað við afbrýðissemi?" og mér fannst ég ekki þurfa að vita meira um lífið. Þetta var málið.  Ég yfirgaf hómópatann og fór heim með remedíur upp á vasann. Ég gaf börnunum remedíuskammt eins og fyrir hafði verið lagt. Á sama andartaki og sonur minn fékk remedíuna upp í sig þá gerðist eitthvað. Hann breyttist og slakaði á. Ég þorði varla að trúa þessu og alls ekki að segja frá því fyrst um sinn.

Þremur mánuðum seinna var ég byrjuð í skólanum að læra þetta undursamlega fag. Þá hét skólinn The College of Practical Homoeopathy, en í dag heitir hann Homoeopathy College http://www.homoeopathytraining.co.uk/. Fyrsta hálfa árið var ég mállaus því þetta voru svo ótrúleg fræði og öðruvísi en allt sem ég hafði lært. Í náminu þurfti ég að kollvarpa svo mörgu sem tilheyrði hefðbundnu og rótgrónu trúarkerfi mínu og fá nýtt og öðruvísi inn í staðinn. Það var bókstaflega eins og að vera hent fram af bjargi. Öll fjögur árin í skólanum voru svo áhugaverð og skemmtileg að ég hlakkaði ævinlega til að mæta í skólann. Ég myndaði djúp tengsl við fagið og ekkert finnst mér jafn áhugavert og að grúska í hómópatíunni - sinna kúnnum, hitta kollega og stúdera.

Á þennan hátt þróaðist þessi hluti lífs míns, mér alveg að óvörum. Söngkonan Enya syngur um að tíminn sé það eina sem geti sagt til um hver leið okkar í lífnu sé. "Who can say where the road goes, where the day flows, only time." http://www.youtube.com/watch?v=v0NoHN1TU5I&feature=related

2 comments:

  1. Elín Lóa KristjánsdóttirFebruary 14, 2011 at 3:12 AM

    Flottur pistill : )
    Takk fyrir að vera til Silla.
    Kær kveðja,
    Elín Lóa

    ReplyDelete