Friday, May 28, 2010

Engiferrótarseyði og góður svefn

Fyrir um það bil tveimur árum síðan var ég í leshóp. Við lásum saman bókina Tilgangsríkt líf. Ein minningin sem tengist þessum kvöldum var engiferrótarseyðið sem við fengum ævinlega hjá gestgjafanum, en hann leiddi einnig leshópinn. Mér varð svo gott af seyðinu. Ég fór að temja mér hér heima að skera niður ca 1 cm af engiferrót í litla bita og sjóða í vatni í ca 15 mín, helli svo síuðu vatninu í uppáhaldsdrykkjarkönnuna mína og nýt þess að drekka. Nú drekkum við þetta fjölskyldan, ég og börnin mín gjarnan á kvöldin og finnum öll hversu gott það gerir okkur. Ég hef líka tekið eftir því að ég sef mun betur eftir að drekka seyðið.

Svefn er eitt af því sem ég hef lært meir og meir að setja í algjöran forgang í lífi mínu. Ef nógur og góður svefn er ekki fyrir hendi þá er tómt mál að tala um að ætla að taka sér eitthvað fyrir hendur á daginn annað en komast í gegnum hann í einhvers konar móki. Fyrir mig er góður svefn grunnur þess að ég haldi sæmilegri geðheilsu.
Hljómsveitin Sigurrós gefur manni draumkennt ímyndunarafl sem er notalegt að fylgi manni inn í svefninn. http://www.youtube.com/watch?v=sWiJWLiSKro&feature=related

Sunday, May 23, 2010

Hómópatía - salt



Eyjan okkar Ísland er umlukin sjó. Sjórinn aðgreinir okkur frá öðrum löndum, jafnvel einangrar og kannski verndar okkur. Hann hefur líka tekið - og í honum endurspeglast óendanleikinn. Saltið í sjónum gerir hann þungan og stuðlar að því að hann frýs ekki eins auðveldlega. 

Hómópatíska remedían Nat mur er unnin úr salti. Þetta er ein stærsta sorgarremedían. Einstaklingur sem þarf á þeirri remedíu að halda einangrar sig gjarnan frá heiminum. Það gerir hann ekki endilega líkamlega eða félagslega heldur verður hann tilfinningalega fjarrænn, gjarnan með tár í auga. Þessar manneskjur vernda sig með ýmsum hætti gagnvart raunveruleikanum. Þeirra stóri ótti er að vera hafnað. Sá ótti ræður ákvörðunum einstaklingsins. Hann kemur sér ekki í aðstæður þar sem honum gæti hugsanlega verið hafnað.
Öll förum við inn í þessa mynd einhvern tíman í lífinu, íslendingar sérstaklega. Við erum oft talin tilfinningalega lokuð eða fjarlæg. Hugsanlega hefur saltið í hafinu sem umlykur eyjuna okkar einhver áhrif á það.