Sunday, August 29, 2010

Louise Hay

Louise L. Hay hefur verið mér leiðarljós í langan tíma. Hún er nánast eins og fjölskyldu-meðlimur. Það er svo undravert að maður getur myndað tilfinningatengsl við fólk í gegnum hugsun þess með því að lesa greinar eða bækur eftir það. Hún skrifar líka af sérlega miklum kærleika til lesandans sem er auðvelt að nema gegnum textann. Ein bókin hennar heitir Hjálpaðu sjálfum þér. Hugmyndafræði þeirrar bókar nýttist mér og fleirum mikið í hómópatíunni. Þar sýnir hún meðal annars fram á hvernig líkamleg einkenni geta verið eðlileg afleiðing af hugsunum og þeim trúarkerfum sem eru innbyggð í huga okkar. Þau verða einnig innbyggð í líkama okkar.

Louise L. Hay skrifaði líka bók með jákvæðum staðhæfingum sem heitir I CAN DO IT. Þó svo jákvæðar staðhæfingar séu oft ódýrar þá er eitthvað töfrandi við Loise Hay og hennar speki, eitthvað meira og dýpra. Það er ólíklegt að við getum allt, sumt þurfum við hreinlega að sætta okkur við að við getum ekki. Samt sem áður er það algengt að við getum þó alltént mun meira en við trúum að við getum.
Þrátt fyrir að jákvæðar staðhæfingar geti haldið manni á floti í lífinu, þá er mín reynsla sú að þær eru ekki alltaf nóg. Stundum hef ég farið í gegnum heilu tímabilin og gert hlutina án þess að trúa að ég geti það og eiginlega trúað að ég geti það ekki. Þá hef ég reitt mig á vini og vandamenn til þess að komast áfram og framkvæmt gegn þessu trúarkerfi, af því ég veit að það er til eitthvað stærra en ég og ég trúi því að ég er ekki ein um að skapa mitt líf. Það er til máttur sem vill mér betur en ég sjálf, meira að segja betur en ég get ímyndað mér að ég eigi skilið. Önnur ástæða þess að ég hef neitað að trúa þessu vantrúarkerfi mínu er að ég vil ekki bjóða börnunum mínum upp á þetta trúarkarma. Ég vil vera góð fyrirmynd fyrir þau.
En á öðrum tímum þarf ég ekki að kljást við þessa vantrú. Þá get ég haldið áfram og treyst því að í augnablikinu finni ég kraftinn og ástríðuna til þess að gera hlutina þannig að það verði öllum til góðs. Þá get ég verið til staðar bæði líkamlega, andlega og tilfinningalega. Eitt sinn sagði kona við mig "við erum hérna fyrir hvert annað". Þá tók mig nokkurn tíma að átta mig á hvað hún meinti en hún átti við að þurfum ekki að gera hlutina ein. Hugmyndin er sú að við njótum þess að vera í samfélagi við aðra og gera hlutina saman. Gleðin og þroskinn kemur úr samveru með öðrum. Það þarf ekki svakalegan húmor til heldur aðeins að vera til staðar, tilbúinn að mæta andartakinu, bæði andlega og tilfinningalega.

Það er auðveldara að lifa í trausti þess að á flóknum tímabilum er ævinlega einhver sem er tilbúinn að grípa okkur, á saman hátt og það gefur okkur mikið að geta gripið aðra þegar þeir mæta mótlæti í lífinu.

http://www.youtube.com/watch_popup?v=8X5_XsFtXtw&vq=small#t=73

Sunday, August 1, 2010

Vefjagigt og hómópatía

Vefjagigt (fibromyalgia) og síþreyta (chronic fatigue syndrome) eru með áhugaverðustu birtingarmyndum á ástandi manneskju í nútímaumhverfi og oft á tíðum jafnvel óhjákvæmilegar viðvaranir miðað við þann lífsstíl sem við tileinkum okkur gjarnan.
Það er algengt að einstaklingar með þessa sjúkdóma þjáist einnig af meðvirkni. Það þýðir að þeir hafi í of langan tíma gert aðra hluti, fólk eða hugmyndir að ráðandi öflum í lífi sínu. Meðvirkni orsakar það að við kunnum hvorki að hugsa út frá okkur sjálfum né um okkur sjálf. Meðvirkir einstaklingar kunna líklega að hugsa um flesta aðra en hafa ekki lært að gera sig sjálfa að viðfangi lífs síns. Þeir vita sjaldan hvernig þeim líður, hvers þeir þarfnast eða hvernig þeir geta bætt líf sitt. (Margir ná bata í 12 spora samtökum, t.d. coda - coda.is.) Á endanum gengur viðkomandi svo nærri sjálfum sér að bæði andleg og líkamleg einkenni fara að gera vart við sig og hreinlega öskra á hann að hugsa betur um sig.

Það var eftirminnilegur fyrirlestur sem ég fór á hjá hómópata, hann fjallaði um síþreytu og vefjagigt. Hómópatinn hafði meðhöndlað marga einstaklinga sem voru á hefðbundinn hátt greindir með þessa sjúkdóma. Hann sagði að oft hefðu þessir einstaklingar þurft að bera mikla ábyrgð á öðrum og ekki upplifað að einhver hugsaði um þá eða bæri ábyrgð á þeim. Þeir væru þess vegna sífellt á verði gagnvart hlutum sem hugsanlega gætu gerst í lífi ástvina þeirra, á þann hátt voru þeir í nokkurskonar guðshlutverki og náðu aldrei andlegri hvíld. Aðferð hómópatans við að meðhöndla þessa skjólstæðinga sína fólst meðal annars í ákveðinni hugleiðslutækni. Hómópatinn lét skjólstæðinginn leggjast á bekk og slaka á. Þá fullvissaði hómópatinn skjólstæðinginn um að það væri ekkert sem hann þyrfti að hafa áhyggjur af því nú ætlaði hann, hómópatinn að sjá um skjóstæðing sinn og passa að ekkert kæmi fyrir, hvorki hann sjálfan né ástvini hans. Þessa æfingu gerði hómópatinn reglulega með skjólstæðingi sínum sem hjálpaði honum að treysta lífinu, sleppa tökunum af áhyggjunum og hvílast andlega.

Orðtakið "Lifðu og leyfðu öðrum að lifa" á vel við hér. Þarna styðja báðir þættir hvor annan, það er ekki nóg að við leyfum öðrum að lifa heldur styðjum við líf annarra með því að lifa einnig okkar lífi eins og hæfir okkur.


Hómópatía virkar oft mjög vel á einstaklinga sem þjást af þessum einkennum. En 20 mismunandi einstaklingar sem þjást af vefjagigt samkvæmt hefðbundnum læknisgreiningum, fá jafnvel 20 mismunandi meðferðir hjá hómópata þar sem einstaklingurinn er í fyrirrúmi og einkennamyndin ólík á milli einstaklinga. Hómópatían leitar að orsök einkennanna í lífssögunni. Hún gerir einnig ráð fyrir að við lifum í takt við ákveðin náttúrulögmál sem gera það að verkum að líf leitar í jafnvægi eða heilbrigði. Náttúrulögmálin þurfum við að virða. Vithoulkas segir í bók sinni The Science of Homoeopathy: (bls 14)

  • Þegar menn brjóta á náttúrulögmálunum, þá leiðir það til margs konar umhverfisspillingar sem orsakar meiri streitu og hún hamlar svo hæfni einstaklingsins til þess að virka vel. 
  • Mannkyn hefur smám saman glatað innri meðvitund sinni sem gerir manneskjum kleift að bera skynbragð á þau náttúrulögmál sem ber að virða. 
Það er flókið fyrir manneskjur að lifa í tengslum við innsæi sitt, náttúruna og lífið, í menningarheimi sem er upptekinn af þáttum sem auka á meðvirkni einstaklinga. Hugmyndafræðin sem lifir í samfélagi okkar stuðlar að sjúkdómum og það þarf sterk bein til þess að lifa gegn þessum hugmyndum og gera eigin heilsu og líf í takt við náttúrulegt eðli okkar, mikilvægara.

Lisa Klein Weber hefur áhugaverða sögu að segja af bata sínum af vefjagigt. Hún hefur einnig byggt upp mjög góða síðu um sjúkdóminn og sett þar fram mikilvæga þekkingu varðandi hann sem einnig er byggð á eigin reynslu.   http://www.releasefibromyalgia.com/my-healing-curing-and-reversing-fibromyalgia-philosophy-and-faq/